Ungt fólk vill raunverulegt val

Það þarf að auðvelda ungu fólk að eignast sitt eigið húsnæði. Það er hægt með því að leyfa ungu fólki að nýta hluta af lífeyrissparnaði sínum til þess að safna fyrir útborgun eða greiða niður húsnæðislán. Þá þarf einnig að einfalda byggingareglugerðir og minnka gjaldtöku ríkis og sveitarfélaga.

Daglega er okkar sagt hvernig við eigum að haga okkur og daglega rekumst við á hindranir sem stjórnmálamenn hafa komið fyrir og takmarka valfrelsi. Afskipti hins opinbera af húsnæðismarkaði er gott dæmi um slíkar hindranir. Með afskiptum sínum kemur hið opinbera í veg fyrir að einstaklingar hafi nokkurt valfrelsi í húsnæðismálum. Þannig er grafið undan möguleikum okkar á að verða fjárhagslega sjálfstæð. Með nýju húsnæðisbótakerfi, sem miðar að því að gera sem flesta að leigjendum með umsvifamiklum bótagreiðslum, er verið með neikvæðum fjárhagslegum hvötum að takmarka þetta valfrelsi enn frekar.

Tryggjum valfrelsi

Einstaklingar eru ólíkir og hafa mismunandi þarfir. Mikilvægt er að einstaklingar hafi val um það hvernig þeir kjósa að haga sinni búsetu, hvort sem þeir vilja leigja eða kaupa húsnæði.

Það er hlutverk stjórnmálamanna að ryðja hindrunum úr vegi einstaklinga, ekki að leggja stein í götu þeirra líkt og gert er með umfangsmiklu og flóknu bótakerfi, kostnaðarsömum byggingareglugerðum, lögum um greiðslumat og óhóflegri gjaldtöku.

Hið opinbera er vandamálið ekki lausnin

Hugmyndaauðgi hins opinbera í gjaldtöku er óendanleg og birtist m.a. í umsýslukostnaði, fokheldisvottorðum, gatnagerðargjöldum og þannig mætti áfram telja.

Flókin lög, reglugerðir og ýmiskonar gjöld leiða til þess að íbúðir eru mundýrari en þær gætu verið. Flóknar byggingarreglugerðir gera það að verkum að útilokað er að byggja hagkvæmar íbúðir sem uppfylla þarfir ungs fólks. Byggingaverktakar og verkfræðingar halda því fram að með nýrri byggingareglugerð og aukinni hófsemd í gjaldtöku sé hægt að lækka byggingakostnað um 15-20%. Það er fjórar og hálf til sex milljónir króna m.v. 30 milljóna króna íbúð. Því má fagna að byrjað er að einfalda regulgerðina, en betur má ef duga skal.

Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, býr til vandamál. Í stað þess að ráðast að rótum vandans er einungis settur plástur á sárið með tilheyrandi kostnaði hins opinbera, sem sóttur er í vasa skattgreiðenda. Þannig má sem dæmi nefna að hið opinbera hefur varið hátt í 300 milljörðum í húsnæðismál á síðustu 15 árum. Samt sem áður hefur aldrei verið jafn erfitt fyrir ungt fólk að eignast sína eigin íbúð.

Eitt stærsta hagsmunamál almennings, og ekki síst ungs fólk, er að stjórnmálamenn taki sig saman í andlitinu og tryggi að hægt sé að byggja hagkvæmt á Íslandi. Til þess þarf lítið annað en vilja til að breyta regluverkinu og draga úr álögum.

Fá að nýta lífeyrissparnaðinn

Að gera okkur kleift að nýta séreignarlífeyrissparnað til að safna fyrir útborgun eða greiða niður húsnæðislán er mikilvægt skref. Mikilvægt er að festa þessa leið í sessi.  Stjórnmálamenn eiga að koma til móts við ungt fólk og auðvelda því að safna fyrir útborgun, sem í dag reynist mörgum óvinnandi vegur. Því ættu þeir að íhuga alvarlega leiðir sem gera því kleift að nýta hluta af lífeyrissparnaði sínum til þess að koma þaki yfir höfuðið og stíga stærri skref í átt að fjárhagslegu sjálfstæði. Með þeim hætti væri hægt að forða ungu fólki frá himinháum vöxtum og auðveldað því að koma undir sig fótunum í lífinu.

Ég fer einnig yfir þessi mál í stuttum myndbandsupptökum á Facebook síðu minni.  

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu, 11. júlí 2016.