Bitnar á öllum kynslóðum

Töluvert er fjallað um húsnæðismál unga fólksins nú í aðdraganda kosninga enda er um mikilvægt mál að ræða sem snertir okkur öll. Ég hef vakið máls á mikilvægi þess að hið opinbera auðveldi ungu fólki að eignast sitt eigið húsnæði og fagnað því að fólk fái að nýta séreignarsparnað til að létta undir kaupum. Frekari ríkisstyrkir, miðstýringarleiðir og önnur afskipti hins opinbera af húsnæðismarkaðinum, líkt og þau sem velferðarráðherra boðaði nýlega, eru ekki líkleg til árangurs. Með einfaldara regluverki og minni gjaldtöku getur hið opinbera hins vegar stigið stór skref til að auðvelda ungu fólki að eignast eigið húsnæði. Séreignastefnan er eitt stærsta hagsmunamál landsmanna. Það á ekki síður við um eldri kynslóðir en þær yngri. Með minni afskiptum af húsnæðismarkaði getur hið opinbera auðvelda öllum kynslóðum að eignast húsnæði við sitt hæfi.

Ungarnir fljúga úr hreiðrinu

Það er vissulega mikilvægt að hið opinbera auðveldi ungu fólki að koma sér þaki yfir höfuðið. En það er ekki síður mikilvægt að eldri kynslóðir geti fært sig til á fasteignamarkaði. Fasteignamarkaðurinn þarf að vera mun sveigjanlegri en hann er í dag. Gangur lífsins felur í sér að það kemur sá tími að ungarnir fljúga úr hreiðrinu. Þá er brýnt að foreldrarnir geti fært sig í minna og hentugra húsnæði. Það er hins vegar síður en svo auðvelt vegna þess að þeir sem yngri eru eiga svo erfitt með að stækka við sig. Það unga fólk sem á annað borð hefur efni á að kaupa sér íbúð er mikið skuldsett og er eignarmyndun þess jafnframt hæg. Það gerir því erfiðara um vik að stækka við sig þegar fjölskyldan stækkar – sem á sama tíma gerir eldra fólki erfiðara um vik að selja hús sín á viðunandi verði, kaupa sér minni og ódýrari íbúðir og og losa þannig fjármuni til efri áranna. Afskipti ríkisins af fasteignamarkaði, til dæmis í formi flókins regluverks, umfangsmikilla gjaldheimta og lóðaskorts, bitna ekki aðeins á ungu fólki – heldur öllum kynslóðum.

Aukin ríkisumsvif er ekki lausn

Við þekkjum vandamálið en þurfum að horfa á lausnina. Sem fyrr leysum við ekki vandann með auknum ríkisútgjöldum, miðstýringu eða frekari ríkisafskiptum. Þegar kemur að húsnæðismálum er hið opinbera vandamálið, ekki lausnin – í það minnsta fram til þessa.

Eitt brýnasta verkefni stjórnmálamanna er að skapa umhverfi þar sem þeim sem vilja gefst raunhæfur kostur á að eignast sitt eigið húsnæði og þar sem virkur leigumarkaður fær þrifist. Til þess þurfa stjórnmálamenn að vinna skipulega að því að einfalda regluverkið, minnka gjaldtöku en umfram allt að hætta að trúa þeirri mýtu að þeir geti með auknum ríkisumsvifum auðveldað öllum lífið. Því það er ekki raunin.

.