Ekki líta undan

Í vikunni komu hundruð stjórnmálakvenna á Íslandi fram til að vekja athygli á því að kynferðisleg áreitni og ofbeldi á sér stað í stjórnmálum rétt eins og annars staðar í samfélaginu. Í kjölfarið birtust sögur sem opinbera lítilsvirðandi framkomu gagnvart konum á öllum aldri í stjórnmálum. Sögurnar eru af ýmsum toga. Sumar segja frá aðdróttunum í formi brandara, kvenfyrirlitningu og gamaldags hugmyndum um hlutverk kynjanna, en aðrar frá miklu ofbeldi. Ekkert af þessu á að líðast, hvorki í stjórnmálum né annars staðar í samfélaginu.

Þetta er mikilvæg umræða og það er gott að hún sé loksins komin upp á yfirborðið. Nú erum við öll upplýst og getum tekið skref fram á við. Það er ekki í boði að líta undan ofbeldi eða áreitni. Allir verða að líta í eigin barm og leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfi stjórnmálanna.

Í grunninn snýst málið um sameiginlegan reynsluheim kvenna í stjórnmálum. Reynsluheim sem við viljum breyta. Það sem á sér stað núna á að hvetja okkur til að ræða um það hvað sé í lagi og hvað ekki. Mögulega þykir einhverjum umræðan erfið og flókin, en áreitnin og ofbeldið er mikið erfiðara og eftirköstin flóknari fyrir þolendurna. Það er ekkert sem afsakar hegðun sem þessa, þótt hún eigi sér stað víða og hafi viðgengist lengi á öllum stigum samfélagsins, í öllum starfsgreinum, félagsstarfi o.s.frv. Það skiptir engu máli hvar á pólitíska litrófinu gerendur og þolendur eru. Heimurinn sem lýst er endurspeglar vandann sem finnst alls staðar í samfélaginu.

Í heimi stjórnmála er daglega tekist á um hugmyndir og málefni. Það er gott og lýsir því frelsi sem við búum við, að geta rökrætt ólík viðhorf og ólíkar skoðanir af gagnkvæmri virðingu fyrir náunganum.

Þessi gagnkvæma virðing er lykilatriði í öllum samskiptum. Viðhorf ungrar konu á jafnmikið erindi í samfélagsumræðuna og viðhorf og skoðanir þeirra sem eldri eru. Konur sem láta til sín taka í umræðunni, burtséð frá aldri þeirra, gera það ekki til að fá klapp á bakið eða aðra líkamshluta. Þær eru ekki að biðja um yfirlætislegt hrós frá eldri körlum um það hvað þær séu duglegar og mögulega dálítið klárar líka og ég hef ekki enn hitt þá stjórnmálakonu sem telur að útlit hennar eða líkami sé hennar helsta verkfæri í stjórnmálum.

Ástandið, eins og því er lýst af þessum hundruðum kvenna, er ekki í lagi. Það er skýlaus krafa að komið sé vel fram við fólk og af virðingu. Verum fyrirmyndir og sköpum þannig umhverfi innan allra flokka að báðum kynjum líði vel og finnist þau jafn örugg. Konur munu ekki sætta sig við það að komið sé fram við þær af yfirlæti, ruddaskap og virðingarleysi. Stærsti árangur þeirrar umræðu sem nú hefur skapast er að þeir sem tileinka sér ekki þetta viðhorf um virðingu í samskiptum munu að lokum dæma sjálfa sig úr leik.

 

Birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 25. nóvember.