Að troða sér í sleik

Öðru hverju rekst maður á fólk sem hef­ur svo gamaldags viðhorf til sam­skipta kynj­anna að maður trú­ir varla að því sé al­vara. Það sem kem­ur kannski enn meira á óvart er að ein­hver sjái til­efni til að gera slík­um viðhorf­um hátt und­ir höfði. Sum­ir reyna að rétt­læta ým­iss kon­ar ósæmi­lega hegðun og ruddaskap með þeim rök­um að þetta hafi nú ekki þótt mikið mál hérna einu sinni. Því miður snú­ast slík­ar rétt­læt­ing­ar oft­ast um forneskju­legt viðhorf til kvenna.

Í fyrra­dag las ég stutt­an pist­il þar sem slík viðhorf voru höfð í flimt­ing­um. Mér þótti verra að sjá að þess­um orðum var hampað á síðum Morgunblaðsins. Höf­und­ur pist­ils­ins hugs­ar til baka til þeirra tíma þegar það þótt sjálf­sögð hegðun að „tendra sig upp á brenni­víni og Ca­mel-smók“ og bjóða stelp­un­um upp og reyna „allt til að vanga þær og trukka og helst að kom­ast í sleik“. Gefið er í skyn að svona hafi þetta bara verið og þar með eðli­legt.

Velt­um því í al­vör­unni fyr­ir okk­ur að jafn­vel þó að þessi hegðun hafi verið al­geng á árum áður, var hún þá eðli­leg? Að vísa í gamla tíma með rök­um um að svona hafi þetta verið rétt­læt­ir ekki of­beldi eða kven­fyr­ir­litn­ingu. Það minn­ir aðeins á þá staðreynd að á þeim tíma stigu brotaþolar ekki fram og sögðu ekki frá brot­um eða ósæmi­legri hegðun í sinn garð.

Hegðun sem er ekki í lagi í dag var held­ur ekki í lagi þá. Það hef­ur ekk­ert með póli­tísk­an rétt­trúnað að gera, held­ur al­menna virðingu fyr­ir fólki. Að standa gegn kyn­ferðis­brot­um hef­ur held­ur ekk­ert að gera með póli­tísk­an rétt­trúnað. Ég kæri mig lítið um að menn blandi dólgs­legri hegðun í garð kvenna inn í umræðu um póli­tísk­an rétt­trúnað og saki þá sem ekki hlæja að göml­um grodd­ara­sög­un­um um að hafa tapað sér í rétt­trúnaði.

Í kjöl­far #met­oo-bylt­ing­ar­inn­ar skrifaði ég pist­il í þenn­an sama dálk í fyrra þar sem ég sagði að stærsti ár­ang­ur þeirr­ar umræðu sem nú hefði skapast væri að þeir sem til­einkuðu sér ekki virðingu í sam­skipt­um mundu að lok­um dæma sjálfa sig úr leik. Það er óþarfi fyr­ir Morg­un­blaðið að skipta þeim aft­ur inn á.

Ein­hverj­um kann að finn­ast nóg komið af umræðu um #met­oo, en það er ljóst að sú bylt­ing er kom­in til að vera – og sem bet­ur fer. Mögu­lega hef­ur gleymst að spyrja ömm­ur okk­ar hvernig þær upp­lifðu þá tíma þegar strák­un­um fannst eðli­legt að skvetta í sig brenni­víni og reyna allt til að kom­ast í sleik.

Pistillinn „Að troða sér í sleik” birtist í Morgunblaðinu 20. september.