Með vinsemd og virðingu

Þegar ég sest niður til að skrifa grein eða pistil um stjórnmál byrja ég á því að velta því fyrir mér hvaða málefni skuli taka fyrir eða hvaða pólitísku skilaboðum ég vil koma á framfæri. Ég geri ráð fyrir að flestir stjórnmálamenn hugsi þannig. Stundum eru þó einhver önnur mál sem koma upp og mann langar til að fjalla um þótt þau tengist ekki þingstörfum beint.
Það verður ekki sagt að umræða sem nokkrir þingmenn á bar urðu uppvísir að nýlega hafi snúist mikið um pólitík. Umfjöllunarefnið var að mestu annað fólk, m.a. fólk í stjórnmálum, og umræðan var ekki vönduð. Það bætir ekkert þegar sumir þeirra reyna að réttlæta orðalag sitt með þeim rökum að svona sé „kúltúrinn“ í íslenskum stjórnmálum, eða þegar grundvöllurinn að afsökunarbeiðnum er einhvers konar réttlæting á orðanotkuninni, af því að svona hafi þetta alltaf verið.

Vissulega hafa einstaklingar tekist harkalega á í gegnum tíðina á vettvangi stjórnmála, jafnt innan sem utan þinghússins. Það þarf ekki að vera óeðlilegt að takast stundum á um einstaka málefni af mikilli hörku. En þá er líka mikilvægt að gera það með rökum og á málefnalegan hátt og án þess að því fylgi meiðandi ummæli eða ósvífni í garð náungans. Átökin snúast fyrst og síðast um ólíka sýn, en ekki algjöra fyrirlitningu í garð annarra.

Það er ekki hægt að koma í veg fyrir það með fyrirmælum eða reglum að menn hegði sér kjánalega. Þær eru til. Þingmenn hafa sett sér siðareglur, flestir hafa hlotið eitthvert uppeldi og heyrt um gullnu regluna. Það er einfaldlega líklegast til árangurs að halda þá grundvallarreglu í samskiptum og lífinu almennt að koma almennilega fram við aðra. (Og biðjast svo afsökunar án nokkurra skilyrða eða eftiráskýringa ef þér tekst það ekki.)

Ágætur maður sem nú er fallinn frá, sérfræðingur á sínu sviði, sagði gjarnan þegar vandræði voru á viðskiptavinum hans: „Segðu sjálfur frá, segðu það strax, segðu alla söguna og segðu satt.“ Það væri óskandi að formaður Miðflokksins tæki þetta til sín frekar en að koma með ótrúverðugar útskýringar á tilfærslu húsgagna og þar fram eftir götum. Ef iðrunin er sönn þá er stutt í fyrirgefninguna en það er ekkert, enn sem komið er, sem sýnir eftirsjá yfir öðru en því að allt hafi komist upp.

Það er skylda okkar kjörinna fulltrúa að berjast fyrir betra samfélagi af heilindum. Við horfum til framtíðar, sjáum heiminn taka stórum breytingum til batnaðar, framfarir á nær hverju sviði og leggjum okkur fram við að vanda okkur. Ef einstaklingar ætla að afsaka hegðun með vísan til eldri tíma, þá getur verið að þeir einstaklingar endi á að missa af vagninum. Vagninum sem er á leið fram veginn af því að framtíðin bíður ekki.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. desember 2018.