Fríverslun við vonda menn?

Að tillögu Íslands samþykkti mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna nýverið ályktun þar sem lýst er yfir áhyggjum af stöðu mála á Filippseyjum. Skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna var falið að gera úttekt á stöðu mannréttindamála í landinu og verður sú úttekt að öllu óbreyttu lögð fyrir ráðið á næsta ári. Það er ánægjulegt að sjá Ísland beita sér með þessum hætti á alþjóðavettvangi. Kraftar okkar nýtast til þess að styðja við mannréttindi og við eigum að nýta þá krafta.

Ísland og hin EFTA-ríkin gerðu nýlega fríverslunarsamning við Filippseyjar. Á það hefur verið bent að það fari illa saman að fordæma stjórnvöld á Filippseyjum eftir að hafa fyrir stuttu gert fríverslunarsamning við ríkið. Því er ég ekki sammála.

Það er rétt að hafa í huga að ríki gera fríverslunarsamning sín á milli. Íslensk stjórnvöld hafa í gegnum tíðina skrifað undir fríverslunarsamninga við fjölmörg ríki – og það verður að segjast eins og er að ekki fá þau öll fyrirmyndareinkunn þegar kemur að mannréttindamálum. Um það er ekki deilt í sjálfu sér.

Það er hins vegar vert að hafa í huga að andlag fríverslunarsamninga eru borgarar hvers ríkis, þ.e. fólk og fyrirtæki í þeim ríkjum sem gera fríverslunarsamning sín á milli. Með öðrum orðum: tilgangur fríverslunarsamninga er að bæta kjör almennings – rétt eins og frjáls viðskipti hafa gert í gegnum aldirnar. Einar mestu framfarir mannkynsins hafa orðið til með frjálsum viðskiptum á milli ríkja.

Því betur sem almenningur í hverju landi stendur í efnahagslegu tilliti því minni líkur eru á að einræðisherrar eða harðstjórar ýmist komist til valda eða haldi völdum. Með aukinni hagsæld verður til stærri millistétt og þeir sem áður bjuggu við fátækt hafa tækifæri til að bæta hag sinn – tækifæri sem þeir höfðu ekki áður. Þetta er vissulega einföld sýn á flókinn veruleika, en staðreyndin er engu að síður sú að fátækt hefur minnkað í heiminum, svo um munar, í kjölfar aukinna viðskipta – sem koma iðulega til þegar stjórnvöld ryðja úr vegi viðskiptahindrunum.

Þrátt fyrir smæð okkar geta íslensk stjórnvöld beitt sér með ýmsum hætti í alþjóðakerfinu. Við höfum talað fyrir því að ríki virði mannréttindi, auki jafnrétti kynjanna, við höfum tekið til máls um umhverfismál, menntamál og þannig mætti áfram telja. Við eigum líka að vera boðberar frjálsra viðskipta á milli ríkja. Þannig leggjum við okkar lóð á vogarskálarnar til að auka hagsæld úti um allan heim. Við getum haft ýmsar skoðanir á þeim stjórnvöldum og ráðamönnum sem við gerum fríverslunarsamning við – en við gerum þá samt af því að við viljum bæta hag þeirra sem í landinu búa og opna þá viðskiptamarkaði sem hægt er að opna.

 

Greinin „Fríverslun við vonda menn?“ birtist í Morgunblaðinu 23. júlí 2019.