Forsenda framfara

Sterkt atvinnulíf og öflugar útflutningsgreinar eru undirstaða íslensks samfélags og þeirrar velferðar sem við búum við. Verkefni stjórnmálamanna á hverjum tíma er að ákveða með hvaða hætti við rekum samfélagið okkar með það fyrir augum að bæta lífskjör og auka verðmætasköpun. Stefna Sjálfstæðisflokksins í þeim efnum er að búa svo um hnútana að hið opinbera standi ekki í vegi hugmyndaauðgi og framtakssemi einstaklinga sem vilja láta að sér kveða.

Atvinnulífið er forsenda þess að hægt sé að bjóða upp á fyrsta flokks grunnþjónustu á Íslandi. Litlu og meðalstóru fyrirtækin eru í því samhengi jafn mikilvæg þeim stóru. Öll byggja þau á frumkvöðlum sem svo skapa bæði störf og verðmæti. Þannig verður grunnur samfélagsins til.

Okkur hættir oft til þess, þegar við hugsum og tölum um atvinnulífið, að beina sjónum að stóru fyrirtækjunum, en staðreyndin er sú að lítil og örfyrirtæki eru lífæð atvinnulífsins. Þau eru 95% launagreiðenda, og tæpur helmingur heildarlauna sem fyrirtæki greiða á Íslandi er greiddur til starfsmanna þessara fyrirtækja.

Til er fólk sem telur að öll afskipti ríkisins séu af hinu góða; hærri skattar og íþyngjandi reglur. Sama fólk telur gjarnan að umfangsmikil afskipti ríkisins á samkeppnismarkaði séu æskileg, hvort sem um ræðir fjölmiðlarekstur, póstsendingar eða áfengissölu. Staðreyndin er hins vegar sú að slíkt fyrirkomulag stendur eðlilegum framförum fyrir þrifum.

Þá er líka til fólk sem má ekki til þess hugsa að fyrirtæki skili hagnaði eða arði til eigenda sinna. Arður er í þeirra huga skammaryrði. Opinber umræða ber oft þann keim að arðgreiðslur séu af hinu illa og skerði hag launafólks. Það er einfaldlega rangt. Afleiðingar þess að fyrirtæki skili ekki hagnaði eru að forsendur rekstursins bresta. Þá missir fólk vinnuna og allir tapa. Hagnaður og arðgreiðslur eru samfélaginu til góðs og grunnforsenda heilbrigðs atvinnulífs og markaðar.

Ríkisvaldið er ekki grunnurinn að góðu og heilbrigðu samfélagi. Það sem skilar árangri, bættu samfélagi og aukinni hagsæld er atvinnulífið. Við styrkjum það með því að minnka skattbyrði, einfalda regluverk, hvetja fleiri í iðn- og verknám og fjárfesta í nýsköpun og tækniþróun, svo nokkuð sé nefnt. Þannig verður til samfélag þar sem allir hafa tækifæri, þar sem aðgengi að heilbrigðisþjónustu er framúrskarandi, menntakerfið fjölbreytt og sveigjanlegt, samgöngur góðar og löggæsla öflug.

Gildi Sjálfstæðisflokksins snúast í megindráttum um frjáls viðskipti, minna ríkisvald, lægri skatta, frelsi einstaklingsins og öflugt atvinnulíf. Með skrefum í átt til frelsis höldum við áfram að búa til gott samfélag þar sem allir hafa skilyrði og tækifæri til að athafna sig og vera sinnar eigin gæfu smiðir. Stefna Sjálfstæðisflokksins er forsenda framfara í landinu.

Greinin „Forsenda framfara birtist“ í Morgunblaðinu 1. ágúst 2019.